John R.R. Tolkien
Hobbitinn
eða
Út og heim aftur
Í jarðholu nokkurri bjó hobbiti. Þið skuluð þó ekki halda að hún hafi verið skítug og fúl af raka, eða að út úr veggjunum hafi staðið óteljandi dinglandi ánamaðkadindlar og enn síður að hún hafi dúnstað af fúkka og myglu. Og þið skuluð heldur ekki ímynda ykkur að hún hafi verið svo þurr og rykug og eyðilega tóm, að þar væri engin leið að setjast niður og njóta góðrar máltíðar. Ónei, öðru nær, því að þetta var ósvikin hobbitahola og varla er hægt að hugsa sér notalegri stað á jarðríki.
Fyrir holunni voru fullkomlega kringlóttar dyr svo þær minntu á kýrauga, grænmálaðar og nákvæmlega út úr miðjunni stóð glampandi fægður látúnshúnn. Inn af dyrunum gekk forstofa, sívöl eins og jarðgöng, en hún var fjarska notaleg og alveg reyklaus, veggirnir allir viðarklæddir og gólfin ýmist steinlögð eða með mjúkum ábreiðum. Þar voru gljálakkaðir stólar og ótal krókar og snagar til að hengja á húfur og kápur — því að hobbitar voru einstaklega gestrisnir og höfðu gaman af gestakomum. Göngin teygðust lengra og lengra, nokkurnveginn en þó ekki alveg þráðbeint inn í hæðina — eða Hólinn eins og allir, jafnvel í margra kílómetra fjarlægð allt um kring, kölluðu það — og út frá göngunum opnuðust ótalmargar dyr, allar kringlóttar, fyrst öðrum megin og síðan hinum megin. Hjá hobbitum þekktist ekki að fara upp á loft: Svefnherbergi, baðherbergi, kjallarar, matarbúr (nóg var af þeim), fataskápar (heilu herbergin undir föt), eldhús, matstofur — allt var á sama gólfi og raunar út frá einum og sama ganginum. Stássstofurnar voru vinstra megin við ganginn (eða horfðu svo við þegar inn var gengið) því að það var gluggamegin. Það voru djúpt innfelldir, kringlóttir gluggar sem vissu út að garðinum og engjunum undir aflíðandi brekkum niður að ánni.
Hobbitinn sem hér réði húsum var vel efnum búinn og bar ættarnafnið Baggi. En Baggarnir höfðu búið hér í Hólnum eða í grennd við hann lengur en elstu karlar gátu munað. Þeir voru álitnir mjög svo virðingarverðir, ekki aðeins af því að þeir voru flestir vel bjargálna, heldur líka af því hve aðgætnir þeir voru, tóku aldrei neina áhættu, hættu sér aldrei út í nein ævintýri né tóku upp á neinu óvæntu: Það mátti nokkurn veginn alltaf vita fyrirfram hverju Baggi svaraði hverri spurningu, svo það var mesti óþarfi að spyrja hennar. En þetta er aftur á móti sagan af því hvernig einn af þessum Böggum lenti í ævintýrum og hvernig það æxlaðist svo til, að hann tók upp á því að gera og segja algjörlega óvænta hluti. Við það missti hann kannski tiltrú nágrannanna, en ávann sér — ja, þið sjáið það seinna hvort hann hafði nokkurn ávinning af því öllu saman.
Móðir þessa ákveðna hobbita — Æ! hvað er eiginlega hobbiti? Líklegast þarf nú á dögum að útskýra hvað hobbiti er, þar sem þeir eru orðnir svo sjaldgæfir og feimnir við Stóra fólkið, eins og þeir kalla okkur, að þeir sneiða hjá okkur. Þeir eru (eða voru) smávaxnir, aðeins hálfir á við okkur. Þeir eru drjúgum sjónarmun minni en skeggjuðu dvergarnir en skegglausir. Það er svo sem enginn galdur við þá tengdur, nema hvað þeir eru snöggir og liprir að láta sig hverfa hljótt og hratt, meðan stóra og heimska fólkið eins og þú og ég komum arkandi með svo miklum skarkala að gæti minnt á fíl og er ekki mikill vandi að heyra til okkar úr mílufjarlægð. Þeir eru feitlagnir einkum framan á maganum, klæðast skærlitum fötum (mest grænum og gulum), skólausir því að þykkur siggvöxtur myndar af náttúrunnar hendi hálfgildings leðursóla undir iljunum en ofan á ristum og á öklunum vaxa þéttvaxnir brúnir hárbrúskar, hrokknir eins og lubbinn á höfðinu á þeim. Þeir hafa langa og liðuga svarbrúna fingur, eru gæðalegir á svip og hlæja djúpum dillandi hlátri (sérstaklega eftir aðalmáltíð dagsins, sem er raunar tvisvar á dag ef þeir geta komið því við). Þá vitið þið nóg um þá til að byrja með.
Jæja, eins og ég ætlaði að fara að segja, þá var móðir þessa tiltekna hobbita — Bilbó Bagga — sú fræga Belladonna Tóka, ein af þremur merkisdætrum Gamla Tókans, höfðingja þeirra hobbita sem bjuggu handan Ár, litlu sprænunnar sem rann meðfram Hólnum. Það orð lék á (í öðrum fjölskyldum) að einhver í Tókaætt hefði endur fyrir löngu gifst álfkonu. Slíkt var auðvitað fráleitt, en hinu var ekki að neita, að það var eitthvað óhobbitalegt í fari þessa fólks. Við og við gerðist það að einhverjir úr Tókaættinni hlupu út undan sér og héldu út í buskann í ævintýraleit. Þeir einfaldlega hurfu þegjandi og hljóðalaust en fjölskylda þeirra þaggaði það niður og reyndi að láta eins og ekkert væri. Svo mikið var víst, að Tókar þóttu ekki eins virðulegir og Baggarnir, þótt vafalaust væru þeir miklu ríkari.
Ekki svo að skilja að Belladonna Tóka legðist í neina ævintýraleit eftir að hún giftist Búngo Bagga. En það var þó kannski ævintýri út af fyrir sig, að Búngo þessi eiginmaður hennar, það er faðir Bilbós, byggði henni þá óhófslegustu hobbitaholu (víst að hluta með hennar fjármunum) sem þekktist hvort sem var undir Hól eða yfir Hól eða handan Ár, og þar bjuggu þau síðan til æviloka. Hitt er líklegt, þótt Bilbó einkasonur hennar, væri að útliti og framkomu eins og lifandi eftirmynd síns trausta og rólega föður, að hann hafi fengið eitthvað skrýtið í vöggugjöf frá Tókaættinni, eitthvað sem leyndist undir niðri og beið þess aðeins að fá tækifæri til að blása út. En það tækifæri lét þó á sér standa, þangað til Bilbó var löngu orðinn fullvaxta hobbiti, um fimmtugt eða þar um. Þannig höfðu árin liðið og hann setið alla tíð um kyrrt í fallegu hobbitaholunni sem faðir hans hafði smíðað og ég var að lýsa fyrir ykkur. Var ekki ekki annað að sjá en að þar mundi hann óhagganlega una alla ævi sinnar daga.
En þá gerðist það að morgni dags endur fyrir löngu og af undarlegri tilviljun í allri heimsins rósemd, — í þá daga þegar varla mátti hljóð heyra en allt var svo iðjagrænt og hobbitarnir enn svo fjölskipaðir og velmegandi — að Bilbó Baggi stóð á hlaðinu úti fyrir dyrum sínum og var að fá sér reyk eftir morgunverðinn úr voldugri pípu sinni sem náði næstum því niður á kafloðnar tærnar (sem hann hafði vandlega greitt) — að Gandalfur átti leið hjá. Já, þessi Gandalfur! Ef þið vissuð aðeins fjórðunginn af því sem ég veit um Gandalf, og hef ég þó aðeins heyrt lítið brot af öllu því sem um hann er skvaldrað, þá eruð þið sjálfsagt við því búin að heyra allskyns furðusögur. Því að sögur og ævintýri spruttu á furðulegasta hátt upp í kringum hann, hvar sem hann lagði sína leið. Hann hafði ekki látið sjá sig hér undir Hól svo áratugum skipti, aldrei síðan vinur hans Gamli Tóki dó. Það var raunar svo langt síðan hann hafði komið hingað, að hobbitarnir voru næstum búnir að gleyma því, hvernig hann leit út. Hann hafði verið einhvers staðar langt handan Hóls og Ár í eigin erindagjörðum síðan fólkið þarna hafði verið litlir hobbitastrákar og hobbitastelpur.
Bilbó var því með öllu óviðbúinn þennan morgun þegar hann sá gamlan mann koma röltandi með stóran staf í hendi. Hann hafði uppháan topphatt bláan á höfði, var í grárri skikkju með silfurlitan klút um háls en fram yfir hann hékk langt hvítt skeggið og lafði niður að mitti. Þá var hann í feikimiklum svörtum leðurstígvélum.
Читать дальше